Lífeyrismál

Mikil umræða hefur átt sér stað á kaffistofunni um stöðu lífeyrissjóðanna í kjölfar bankahrunsins.

Í dag er íslenskum launþegum skylt að leggja 12% af launum sínum inn í lífeyriskerfið. Til viðbótar er valkvæður séreignarsparnaður (2% eða 4% af launum) en þar er atvinnurekendum skylt að leggja fram mótframlag að lágmarki 2%. Launafólk getur því sparað í heildina 18% af launum í lífeyriskerfinu.

Sjóðirnir koma auðvitað misvel út úr hruni bankanna. En heilt yfir þá er staða sjóðanna ásættanleg þrátt fyrir að ávöxtun síðustu ára hafi þurrkast út og margir lífeyrisþegar horfa fram á skerðingar lífeyris. Auk þess má búast við að sjóðirnir þurfi að færa innlendar eignir sínar enn frekar niður eftir ríkisvæðingu atvinnulífsins.

Skattstofnar ríkisins hafa hrunið og því er horft til lífeyrissjóðanna í því samhengi vegna þess að lífeyrissjóðirnir gætu aukið tekjur ríkissjóðs í dag með því að skattleggja inngreiðslurnar í stað þess að skattleggja útgreiðslurnar.

Alþingi samþykkti frumvarp síðasta vetur sem gerði séreignarlífeyrisþegum kleift að leysa út að hámarki eina milljón af sínum séreignarsparnaði. Samkvæmt upplýsingum frá Ríkisskattstjóra þá hafa um 45 þúsund umsóknir borist um tímabundna útgreiðslu séreignarsparnaðar. Er heildarfjárhæðin sem sjóðirnir hafa borgað út rétt tæpir 24 milljarðar kr. Hátt í 6 milljarðar munu renna til ríkissjóðs í ár og árið 2010 (og 3 milljarðar í formi útsvars til sveitarfélaga) þar sem tekjuskattur er tekinn af sparnaðinum við útgreiðslu hans. Þetta var því góð leið til að koma til móts við einstaklinga í erfiðleikum og um leið auka tekjur ríkissjóðs og sveitarfélaga tímabundið.

Ég er því á þeirri skoðun og slíkir plástrar virki og ég er ekki hlynntur allsherjar kollsteypum á lífeyriskerfinu. Heildariðgjöld inn í lífeyriskerfið námu 118 milljörðum kr. árið 2008 og útgreiðslur námu 54 milljörðum króna. Sú þróun á eftir að breytast á komandi árum með hækkandi meðalaldri þjóðarinnar.

Ef að kerfinu yrði breytt í þá vegu að skattleggja inngreiðslur í kerfið þá myndi það þýða a) minni fjárhæð greiðist inn í lífeyrissjóði og þar af leiðandi er um lægri höfuðstól að ræða sem aftur veldur lægri ávöxtun í krónum talið á söfnunartímanum, b) lægri fjárhæð greiðist við töku lífeyris (sem á móti skattleggst ekki), c) minni ráðstöfunartekjur lífeyrissjóðanna til fjárfestina (en það getur verið kostur, fer algjörlega eftir fjárfestingarstefnu- og árangri sjóðanna).


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband