Færsluflokkur: Bloggar

Veðurofsi og Al Gore

Jæja ! Eru ekki allir að hugsa það sama ? Hvað Al Gore hafa mikið til síns máls í myndinni sinni ! Hlýnun jarðar.

Hann fann líka upp internetið. Maður hlýtur að taka mark á svona manni.


VAKNING : Stormur gekk yfir höfuðborgarsvæðið í nótt

Óveðrið gekk yfir Suður- og Vesturland í nótt. Vindhraðinn undir Hafnarfjalli fór upp í 64 metra á sekúndu. 12 vindstigin gömlu (fárviðri) eru 33 m/s, þannig að ljóst er að óveðrið var gríðarlegt. Enginn er þó aukafréttatími á Rúv, og ljóst er að enn einu sinni hefur Rúv brugðist öryggishlutverki sínu.    

Þess í stað þarf maður að lesa um mikið tjón í Hafnarfirði, á Suðurnesjum foknar þakplötur og baráttu upp á líf og dauða í Borgarnesi.  

Búist er við stormi norðautan og austantil í dag og fram á morgun. Veðurstofan gerir ráð fyrir að stormi á föstudag, þannig að núna er lognið á undan storminum. 


14 dagar til jóla

Gamli góði Villi gerir alltaf piparkökuhús á meðan hann hlustar á Johnny and the Hurricanes.

Heimildir :

Lag

Uppskriftir


Jólaþensluneyslubrjálæði

Einkaneyslan hefur aldrei verið jafn mikil og einmitt nú þegar að stýrivextir Seðlabankans eru í hæstu hæðum. Engar hagfræðikenningar bíta á kaupglaða og bjartsýna Íslendinga.

Enda bárust fréttir af því í vikunni að Ísland væri besta land í heimi. Ísland hefur náð forystunni af Noregi á lista yfir þau ríki sem best þykir að búa í, samkvæmt þróunarstuðli sem birtist í árlegri skýrslu Sameinuðu þjóðanna, heimild.

Nú í vikunni opnaði risaverslun Hagkaupa í Holtagörðum. Þar er hægt að birgja sig upp af kókapuffsi á 99 kr, fyrir þá sem að eru hluti af svokallaðri kókapuffskynslóð. 

Nema hvað. Jólin. Tími neyslunnar. Á sama tíma er Seðlabankastjóri að reyna að ná niður verðbólgu. Hvar er trúverðugleiki peningastefnunnar ? Ekki í Holtagörðum. Seðlabankastjóri hefur ekki tjáð sig um opnun þessarar verslunar hingað til að mér vitandi.

Hvað ætli hann gefi í jólagjafir ? Ekki vill hann valda þenslu. Sennilega gefur hann bara eitthvað heimatilbúið. Birkihríslu og músastiga.


Afskiptasemi

Nýlega gerði Seðlabankastjóri athugasemdir við neysluhegðun kaupsjúkra Íslendinga sem biðu í biðröð eftir að kaupa leikföng á tilboðum. Nokkrum dögum síðar sagði hæstvirtur forsætisráðherra að menn ættu ekki að fjárfesta í húsnæði. Eins og frægt er orðið þá hafði fyrrverandi borgarstjóri Reykjavíkurborgar sig í fram að taka bjórkæli úr sambandi. Enginn kaldur bjór fyrir lýðinn.

Er ekki yndislegt að búa í frjálsu landi ? 


Áfram árangur ekkert stopp

Ég verð að vera virkari í skrifum mínum. Ég á aðdáendahóp, hann er ekki fjölmennur. En samt. Ég er hugsjónamaður, geri þetta fyrir mitt krú.

Djúp lægð hefur verið yfir suður og vesturhluta landsins. Vegna þessa hefur verið stormur á höfuðborgarsvæðinu. Sérstaklega hefur stormurinn verið skæður í nálægð fjalla og ætti ég kannski að nefna það að fólksbíll fauk út af undir Hafnarfjalli í gærkvöldi. Ökumaður slapp nánast ómeiddur en vindhraði var 35 metrar á sekúndu þar í gær.

Bæði Björgunarsveit Reykjarnes og Björgunarsveit Vestmannaeyja voru kallaðar út í nótt vegna þess að þakplötur höfðu losnað.

Samkvæmt veðurbloggi Einars Sveinbjarnarsonar þá er áfram búist við stormi sunnan- og vestantil á landinu. Þá er bara að ná í hamarinn og negla fyrir alla glugga !


Fasteignafjármögnun - Innlent lán vs. Erlent lán

Háir innlendir vextir, verðtrygging, gengi íslensku krónunnar o.s.frv. hefur mikið verið í umræðunni að undanförnu.
2 sjónarmið :
"Erlent lán er málið" 
"Alltof mikil áhætta"

Ég setti upp 2 dæmi, og færi ykkur hér með:

Lán A (innlent):
40 ár
5,55% nafnvextir (lægstu mögulegir vextir frá Íbúðalánasjóði, án uppgreiðslugjalds reyndar)
3% verðbólga

Heildargreiðsla á 40 árum = 68,7 mkr
Meðalgreiðsla = 143 þús.

Lán B (erlent):
40 ár
3% gengisveiking per ár
40% CHF, 40% JPY, 20% CAD ... þessi samsetning með 2,15% vaxtaálagi gefur nafnvexti uppá 4,245%

Heildargreiðsla á 40 árum = 46,9 mkr.
Meðalgreiðsla = 98 þús.

Forsendurnar:

  • Þetta eru bæði 40 ára lán, uppá 14 mkr hvort.
  • Innlenda lánið ber fasta 5,55% vexti en erlenda lánið hefur breytilega vexti; þeir geta bæði hækkað og lækkað. Erlendir vextir eru sögulega lágir en hafa þó verið að hækka undanfarið.
  • Forsendan um 3% gengisveikingu í Láni B er sett inn til gamans. Ef við gefum okkur að krónan muni veikjast um 3% á ári í 40 ár, þá þýðir það að vísitölugildið fari úr 122 í 391. Slíkt er fjarstæðukennt.
  • Hægt er að greiða inná erlend lán án kostnaðar, en að það kostar allt að 2% að greiða inná innlend íbúðalán.
  • CHF er svissneskur franki, JPY er japanskt yen, CAD er kanadadollari. Vigtirnar eru ekki útpældar og það má leika sér að útbúa myntkörfu hér.
Í ljósi forsenda um gengisveikingu set ég upp:

Lán C (erlent):
40 ár.
14 mkr.
Sama myntkarfa.
0% gengisveiking.

Heildargreiðsla á 40 árum = 26,9 mkr
Meðalgreiðsla = 56 þús.

Niðurstaða:
Það segir sig sjálft, er það ekki?

12 dagar í Háskólatorg

Ef einhver hellti vökva yfir lyklaborðið þegar hann las fyrirsögnina, þá biðst ég afsökunar á því. En já það styttist í Torgið.

Ef að ég ætti að meta Stress-stigið þ.e.a.s. stress vegna tímaáætlunar og ógerðra framkvæmda þá myndi ég skjóta á 6 af 10. Þetta ætti að hafast á þessum 12 dögum en ljóst er að unnið verður fram á kvöld og jafnvel lengur til þess að þetta náist.

Þetta verður lúxus. Menn þurfa ekki að labba út í slagviðri vetrarins heldur spóka sig bara í Tröð á leið í Gimli. Háskólatorg tengir saman byggingar háskólans og gerir skólann heilsteyptari. 

Ætli mesti lúxusinn verði ekki að fá heitan mat í slíku torgi enda hafa menn hingað til einungis etið sómasamlokur og drukkið svart kaffi úr plastmálum.

Áfram Háskólatorg !


Jólagjöfin í ár - SPSS

Áhugi á tölfræði fer vaxandi í þjóðfélaginu og því er SPSS gagnavinnsluforritið jólagjöfin í ár. Nú geta menn byrjað að stunda rannsóknir heima í stofu.

Hvert er sambandið milli á milli sparnaður/ráðstöfunartekjur og greindarvísitölu ?


mbl.is Jólagjöfin í ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband